|
mánudagur, nóvember 07, 2005
Jæja jæja þá er heil vika liðin og ekkert hefur verið skrifað hér á Strætið. Þar sem annar helmingur heilans er upptekin við að skoða hvert skal haldið næst í rannsóknaráætlanaskrifum þá held ég að sé gott að nýta hinn helming heilans til merkilegri skrifa hér á Strætinu.
En hverju ætti ég að segja frá? Já það er spurning. Kannski ég byrji á því að tilkynna að BB er komin aftur til baka af ráðstefnunni og miðað við ferðasögur hennar get ég ekki betur skilið en að fyrirlesturinn hafi gengið vel. Hún kannski skellir inn ferðasögu hér við tækifæri ef henni þykir tilefni til. Á meðan BB var að sigra vísindaheiminn lærðum við Mikkirefur meira í dag en í gær. Já ég veit að þessu er erfitt að trúa en svona var það nú samt. Og til að verðlauna okkur þá horfðum við á Tveggja turna tal og Hilmir snýr aftur á veggnum með THX hátalaran hæfilega stillta. Ég segi fyrir mína parta að alltaf finnst mér þetta ævintýri jafn mikil snilld og þakka ég enskukennurum MR kærlega fyrir að kynna slíkar eðal bókmenntir fyrir viðutan mennskjælingum. Aumingja Mikkirefur fékk regulega að heyra fróðleiksmola um gerð myndarinnar sem og háfleygar tilgátur um að í raun sé Hringadróttingssaga skrautbúin ádeila á iðnbyltinguna og hversu auðveldlega auðæfi og völd spilla mönnunum. Já ég vorkenni honum líka :Þ
Á miðvikudaginn skelltum við bakaradrengurinn okkur svo á forsýningu á óperunni Tartuffe sem sett var upp af nemendum sem stunda óperusöngnám við UW. Þar hittum við fyrir Mæju, Ólöfu og Kára sem öll voru komin til að styðja "okkar mann" og hrópa "Ísland (klapp klapp klapp), Ísland (klapp klapp klapp), Ísland (klapp klapp klapp)" er hann stigi fram á sviðið. Jamm "okkar maður" stóð sig hetjulega og brá m.a. fyrir sig sverði til að verjast óþokkanum í óperunni en eitthvað gleymdi klappliðið sér og varð því bara að óska stráksa til hamingju með vel unnið verk í lok sýningunnar. Já Íslendingar gera garðinn frægan víða.
Úbs....hinn helmingur heilans er hefur lokið störfum og vill fara að komast að á lyklaborðinu til að skrá niður hugmyndinar. Já allt tekur enda :Þ
Þar til næst, hreyfðu þig...það léttir lundina!
posted by Big Bird a.k.a. BB 4:43 e.h.
|
 |