|
|
mánudagur, október 09, 2006
Oft er það þannig með nemendur að þeir tvíeflast er nýtt skólaár hefst og lofa sjálfum sér að standa sig betur í alla staði en á skólaárinu sem var að líða. Í Sesamestræti er engin undantekning frá þessari reglu og ákváðum við BB að taka líkamsræktina með trompi og drífa okkur í ræktina snemma morguns á þessu haustkvarteri. Því skráðum við BB okkur í Pílates tímamorguntíma í háskólaræktinni og biðum svo spenntar eftir að fyrsta námskeiðsvikan gengi í garð. Fyrsti tíminn var svo á dagskrá kl 8.15 í morgun og var Morfeus ræstur kl 7.35 til ná að bera stelpurnar á staðinn í tæka tíð fyrir morgunleikfimina. Við fundum stæði fyrir Morfeus á bílaplani skammt frá ræktinni og í þær 5 mín sem tók okkur að rölta í ræktina lofuðum við okkar framtak í hástert. Já við vorum sannarlega stoltar af því að drífa okkur á fætur og vera mættar í ræktina svona eldsnemma að morgni :Þ Við röltum fyrir hornið á íþróttahúsinu og gengum þá beint í flasið á bekkjarsystur minni og eiginmanni hennar þar sem þau leiddust hönd í hönd út úr íþróttahúsinu. Með okkur tókust fagnaðarfundir og allir heilsuðust. Bekkjarsystir mín leit svo spyrjandi augum á okkur BB og sagði: "eru þið á leið í tíma?" Já já svöruðum við afar stoltar í kór, "við erum á leið í Pílates sem byrjar kl 8.15" Þá leit eiginmaðurinn sposkur á konu sína og sagði: "Betty, var það ekki tíminn sem þú ætlaðir að skrá þig í en fannst hann ekki vera nógu snemma á dagskrá?" Við BB litum skelfingaraugum hvor á aðra og gerðum okkur grein fyrir því að miðað við innfædda Seattlebúa værum við bara letihaugar sem nenntum ekki í ræktina fyrr en langt væri liðið á daginn. Já við eigum greinilega langt í land með að aðlagast þeim fótaferðatíma er eðlilegur þykir hér í Seattle :Þ
Þar til næst, morgunstund gefur gull í mund!
posted by Big Bird a.k.a. BB 9:36 e.h.
|
 |