|
|
laugardagur, júní 24, 2006
Það er svo sem ekkert nýtt að frétta héðan úr Strætinu nema kannski það helst að BB mun snúa aftur á sunnudaginn eftir langafjarveru á Íslandi. Já það verður gaman að fá stelpuna "heim" og ekki er laust við að ég hafi saknað henni ögn á þessum tíma. Það er sannarlega þreytandi til lengdar að tala við plakat af Jonnhy Depp og Chris Martin :Þ Þeir svara mér mér illa og seint, það er helst í draumi sem ég heyri eitthvað frá þeim. En nú haldið þið, lesendur góðir, að ég sé að missa aðeins vitið en það vita margir sem mér standa nærri að ég trúi því að draumar okkar segi okkur margt og mikið um það sem undirmeðvitund okkar brasar á meðan við ekki tökum eftir. (Þessi setning er í boði Freud ;). Svo mark skal taka á draumum, en kannski þarf maður smá aðstoð við að ráða þá!
Það sem ég hef helst haft mér til dundurs undanfarin kvöld er að horfa á DVD. Þannig er að ég datt inn á Blockbusters í enda maí til að leigja mér DVD og stúlkan sem afgreiddi mig sannfærði mig um að það væri snilldarhugmynd að prófa heimsendingaþjónustum þeirra FRÍTT í einn mánuð. Ég er ekki Ávalsbarnabarn fyrir ekki neitt svo ég tók þessu boði fagnandi og hefur því pósturinn borið hingað hvern DVD diskinn á fætur öðrum án þess að ég hafi þurft að borga einn grænan fyrir. Ég hef svo notað forláta Scan house myndvarpann og horft á alla diskana á veggnum í Sesamestræti. Heheheh ég veit, frekar laim að hanga einn og horfa á DVD en svona er raunveruleiki graduatenema í Seattle stundum. Í kvöld horfði ég á þá frábæru ræmu Match point. Skal ég viðurkenna að ástæða þess að hún varð fyrir valinu var sú að Oscar hefur alla tíð mælt með Woody Allen myndum og þar sem þessi gerist í U.K. var ég forvitin. Myndin byrjaði vel þar sem einn af þeim leikurum sem mér finnst heitastur í dag leikur aðalkarlhlutverkið. Þessi gaur náði athygli minni í Bend it like Beckham þar sem hann leikur þjálfarann. En aftur að Match point, þessi mynd fjallar um heppnina í sinni einföldustu mynd. Ekki vil ég skemma söguþráðinn fyrir fólki sem á eftir að sjá myndin en ég verð að segja að Woody Allen hitti naglann á höfuðið að mínu mati. Það er alveg sama hversu mikið lagt er á sig, það er alltaf ákveðið heppni-element sem þarf til þess að hlutirnir gangi upp. Já kannski var það undirmeðvitund mín að verki þegar ég valdi mér japanska táknið fyrir "heppnina" forðum daga á tattústofunni á Sauðárkróki. Allavega, síðan vorið 1999 hefur heppnin verið á hægri öxlinni og er ég ekki frá því að margt gott hafi gerst síðan þá. Og fyrir það þakka ég að heilum hug og hjarta.
Ég er heppin að fást við það í lífinu sem fær hjartað mitt til að brosa, heppin að eiga fjölskyldu og vini sem meta mig mikils og ég elska af heilum hug, heppin að hafa heilsu bæði andlega og líkamlega, heppin að fá tækifæri til að læra og hljóta styrki til náms, heppin að vera til og fá að njóta lífsins þó ekki sé nema augnablik í eilífðinni.
Þar til næst, við skulum ekki gleyma því hversu heppin við erum að fá að vera til, lifa og elska.
(hehehe ok aðeins háfleygt en þið vitið hvernig ég er, I can talk the talk but can I walk the walk?)
posted by Big Bird a.k.a. BB 12:54 f.h.
|
 |