|
|
föstudagur, apríl 21, 2006
Gleðilegt sumar
Í dag er góður dagur, það er líka föstudagur og akkúrat ekkert plan komið fyrir helgina. Ég komst sem sagt heilu og höldnu heim til Íslands og er búin að koma mér fyrir við skrifborð í skúrnum fyrir utan VR-II. Ég verð að játa að ýmislegt hefur breyst, ég hafði gleymt því eða fegrað eða kannski hef ég bara breyst. Ég er náttúrulega alltaf eins og útigangur til fara við hliðina á uppstríluðum Íslendingum og alveg ótrúlegt hvað allir ÞURFA stór hús og marga flotta bíla, hér væri sjálfsagt gert grín af morfíusi. Það kemur svo sem ekki að sök í þessum hóp sem ég er í dags daglega því hér líkt og í Seattle tala ég ensku allan daginn og íslensku á kvöldin. Ágætis fyrirkomulag, gallin er hinsvegar sá að allflestir íslendingarnir hérna ávarpa mig á ensku, vont en það venst. Þar sem ég á ekki lengur bíl á íslandi fer ég minna ferða að mestu í strætó og hef ég ekkert út á nýja strætisvagna kerfið að setja nema vera skildi ókurteisa bílstjóra og truntulega farþega. Ein skvísan settist við hliðina á mér í gær og var hún augljóslega að koma út ræktinni, hún demdi sér niður og hálfskellti töskunni sinni í fangið á mér. Ég bara brosti og færði mig undan, hún sagði ekki neitt. Stuttu síðar gengur unglingspiltur fram hjá henni og rakst ögn í hana þar sem hún sat hálf út á ganginum, minn skapstyggi sessunautur dæsti hátt og setur upp ennþá meiri fýlusvip. Hummm ef þetta er staðan eftir gott sprikl í ræktinni hvernig er hún þá dags daglega hugsaði ég með mér, vesalings eiginmaður. Þessar hugsanir voru svo truflaðar af kvíðan sem gaus upp það kæmi víst að því að ég þyrfti að teygja mig yfir hana til þess að hringja bjöllunni, hvar var spottinn hjá glugganum núna ? Ég frestaði því eins lengi og ég gat en engin annar virtist hafa áhuga á þessari tilteknu stoppustöð svo ég lét vaða, afsakaði mig í bak og fyrir teygði mig í bjöllun, augnarráðið sem ég fékk var líkt því og búast mætti við ef ég hefði höggvið af henni höndina. Hún dæsti, muldraði einhver orð sem ekki henta til opinberar prentunar og stóð upp svo ég gæti farið þó svo við værum alls ekkert komin á stoppustöðina, ég stökk á fætur enda vildi ég ekki styggja konuna ferkar. Ég veit ekki hvernig hún fór að því en einhvernvegin tókst henni að stökkva uppúr sætinu og fram fyrir mig við dyrnar þegar vagninn nam staðar. Þetta kom mér gersamlega í opna skjöldu því ég gat ekki betur séð af samskiptum okkar augnabliki áður að það hafi verið henni til mikils ama að ég skildi vilja þessa stoppustöðu. Til þess að setja punktinn fyrir i-ið sleiflaði hún íþróttatöskunni upp á öxlina á sér með millilendingu á vanganum á mér, ég var bókstaflega svo slegið að mér hugkvæmdist ekki að stökkva á bak henni, garga, bíta og sparka..........en eftir á hyggja held ég að það hefði verið einu réttu viðbrögðin. Ég held að ég sé búin að missa allt ´tötss´ég þekki ekki brjálæðinga eins vel út hérna heima og úti. Í Seattle get ég oftast bara forðast að setjast hjá illa lyktandi manninum sem öskrar á alla, hérna heima virðast þessir einstaklingar falla betur inn í fjöldan eða ég bara orðin svona hrikalega glær. Ég gæti sagt hryllingssögur af vagnstjórum líka en sá sem keyrði vagninn í morgun var bara svo elskulegur að ég ætla að láta það eiga sig. Í gær var yndislegt veður og ég náttúrulega að vinna allan daginn og í morgun var svo rigning, það lítur hinsvegar út fyrir að það sé að létta til núna seinni partinn og því aldrei að vita nema ég komist á hestbak í kvöld, hver veit, hver veit.
posted by Big Bird a.k.a. BB 7:32 f.h.
|
 |