|
mánudagur, október 02, 2006
"Break the silence" stóð einhvers staðar og þar sem langt er síðan ég ritaði á Strætið síðast þá þykir mér við hæfi að hefja pistilinn á þessum orðum. Eins og margir vita hefur þó nokkuð á daga mína drifið síðan ég lét frá mér heyra hér síðast og ber þar hæst haustferð mína til Íslands. Já stelpan skellti sér heim og var þar í rúman mánuð við leik og störf. Í þetta sinn gerðist stelpan nokkuð víðreist og skellti sér m.a. til Akureyrar í 4 daga og vildi svo heppilega til að í þeirri ferð náði ég að komast í skírn nýjasta afkvæmis hjúkkuvinahópsins. Boðað var til skírnarinnar með ótrúlegum fyrirvara og var það ein glögg stúlka úr vinahópnum sem spáði að meira byggi undir en skírn. Það kom svo á daginn að stúlka sú hafi rétt fyrir sér þar sem foreldrarnir drifu bara í því að gifta sig í leiðinni. Já, ég vart trúði heppni minni að vera ekki bara stödd á Íslandi á þessum tímamótum heldur að vera á staðnum og geta fagnað þessum tímamótum með vinum mínum....sannarlega rúsína í pylsuendanum þar á ferð. Til gamans skelli ég hér inn mynd af skírnarbarninu og nýgiftum foreldrum hans: Ég skellti mér svo líka í helgarferð um Snæfellsnesið og náði þar afskaplega fallegum myndum af jöklinum sem og öðru er fyrir augu bar. Hér koma nokkrar svipmyndir og mæli ég með þessu litla kaffihúsi, sannarlega notalegt að drekka þar kaffi úr bollum sem hægt hefði verið að finna í skenknum í sparistofunni hjá langömmu :Þ
   
Á milli ferðalaga notaði ég tímann og vann að ýmsum málum varðandi rannsóknina mína og var ég svo heppin að fá fyrirmyndaraðstöðu til afnota hjá kennslufræði-og lýðheilsudeild HR. Kvöldin notaði ég svo ýmist til að horfa á Magna í Rockstar, kíkja í kaffi til ættingja og vina, fara í bíó eða út að borða. Það skal samt viðurkennast að ekki náði ég að heimsækja nærrum því alla sem mig langað til. En þannig vill oft verða að maður nær ekki á fólki eða hreinlega rennur út á tíma að hafa samband og bóka kaffisamsæti. Ég vil því biðja fólk (og þá sérstaklega fyrrverandi Seattlebúa) afsökunar á slóðaskapnum og vona að það taki vel í að hitta mig um jólin eða einhvern tíman á fyrstu mánuðum nýs árs en stelpan stefnir að því að vera heima á klakanum frá jólum og fram í miðjan mars.
Síðustu helgina notaði ég svo í að samfagna föður mínum en hann varð fimmtugur 22. sept og var að því tilefni haldin veisla. Sú veisla heppnaðist með eindæmum vel og skemmtum við systur veislugestum með myndasýningu þar sem við fórum yfir lífshlaup karls frá því hann var lítill polli í vöggu og fram til dagsins í dag. Hér er koma nokkur sýnishorn úr þeirri sýningu:
   
Jamm, ég mætti í afmæli á föstudagskvöldi, hádegislátur í Ástúni á laugardegi, pakka í töskur og lagði svo af stað til Seattle á sunnudegi.
Síðan ég kom aftur út hef ég gert mest lítið. Alveg ótrúlegt hvað maður er lengi að koma sér í gang aftur eftir frí en dagurinn í dag hefur verið afkastamikill og vona ég að hann gefi tóninn fyrir því sem koma skal.
Þar til næst, markmiðið getur verið nærri þó það virðist langt í burtu.
posted by Big Bird a.k.a. BB 6:06 e.h.
|
 |