|
miðvikudagur, júní 14, 2006
Jæja nú læt ég þessa þöng á Strætinu ekki viðgangast lengur og skrifa hér smá pistil áður en ég fer í háttinn. Ekki hefur þögnin hér verið til marks um það að ekkert hafi verið að gerast í lífi Strætisbúa undanfarið heldur er um að kenna einskærri leti og aumingjaskap.
Héðan er allt gott að frétta frá síðustu færslu og skal þess getið að Svavari frænda tókst ætlunarverk sitt svo um munaði og náði að slaka á frænku sinni. Jamm stelpan svaf fram að hádegi og mátti ekki vera með meira en tvo hluti á dagsplaninu. Það fór meira að segja þannig að ég hef átt einstaklega erfitt með að koma mér að verki við rannsóknaráætlunarskrif eftir að hann fór héðan á vit ævintýra í Bemidji á fimmtudaginn var. Ég hef því fundið mér eitt og annað til dundurs til að sleppa við að skrifa og ber þar hæst að nefna barnagæslu á laugardaginn var. Mér var falið það verkefni að passa Gunnar Magnús góðan dagspart á meðan foreldrar hans drifu sig á Husky leikvanginn til að útskrifast formlega með mastersgráðurnar sínar. Það fór vel á með okkur Gunnari Magnúsi og þó svo að ég hafi ekki farið á rauðakrossnámskeið í barnapössun gekk þetta svakalega vel hjá okkur. Enda er Gunnar Magnús einstaklega góður strákur sem lítið þarf að hafa fyrir. Dunduðum við okkur við að borða, sofa og fara í göngutúr á meðan skötuhjúin voru í burtu. Já svo auðvitað þurfti ég að svara símanum mínum allnokkrum sinnum þar sem ungu foreldrarnir voru "bara að tékka á hvernig gengi" :Þ En það er ekki laust við að ég hafi samt verið búin að missa heyrnina þar sem glamrið í eigin eggjastokkum var orðið ansi hávært undir lok pössunarinnar. En ég segi eins og Jóhanna Sig: "minn tími mun koma" :)
Svo er ég núna komin með lyklavöld af tveimur íbúðum þar sem ég tók að mér að vökva blóm og tæma póstkassa á einum stað en flyt svo yfir í Fremont á föstudaginn að passa hundinn Moose og köttinn Pu yfir helgina. Það hittir nú svo vel á að einmitt um helgina er hið fræga Fremont fair alla helgina. Eitt af aðalsmerkjum þeirrar hátíðar er einmitt Fremont Solstice Parade þar sem skrúðgöngufólk fagnar sumarsólstöðum með því að klæða sig úr öllum spjörum og ganga eða hjóla nakinn um Fremont. Nú vill svo til að Þjóðhátíðardag okkar Íslendinga ber einmitt upp á laugardaginn svo þar er aldrei að vita nema að hugaðir Íslendingar noti tækifærið og drífi sig í þessa skrúðgöngu í tilefni dagsins. Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég er með músahjarta og ætla bara að standa hjá og festa fyrirbrigðið á mynd.
En ég læt þetta nægja í bili og þar til næst, takmarkið getur verið nærri þó það virðist langt í burtu!
posted by Big Bird a.k.a. BB 1:06 f.h.
|
 |