|
föstudagur, mars 10, 2006
Humm ég datt hér inn á síðuna og áttaði mig á því að þögn hefur ríkt á Strætinu ansi lengi og nú skal úr því bætt. Við BB tókum eftir því að síðasta athugasemd á póstinn hér fyrir neðan var broskarl frá Diddu frænku. Hins vegar greinir okkur á um hvaða merkingu sá broskarl hefur. Tel ég að Didda hafði verið að tjá sig um brosið sem örugglega lék um varir hennar er hún brá sér í draum minn og ímyndar sér að vera í jógaeinkatíma með Sting. BB vill hins vegar meina að broskarlinn tákni háðslegt glott Diddu er hún kom í heimsókn á Strætið í xx-aðasta sinn og sá að við höfðum ekki póstað neitt nýtt. Broskarl= "iss það er ekkert nýtt hér!"
Hver sem ástæða Diddu var fyrir þessu merki er ljóst að þetta er hið fínasta dæmi um hvernig fólk túlkar meiningu orða og merkja á mismundi hátt og byggist sú túlkun á reynsluheimi hvers og eins. Þetta hefur verið þema kúrs um aðferðafræði eigindlegra rannsókna sem ég hef setið síðan í janúar. Þar hefur oftar en ekki komið fram að tungumál mótar okkur í raun þar sem við tjáum okkur um sjálfi, lífsgildi og lífið með orðum og táknum. Hins vegar hafa orð og tákn þann annmarka að þau eru aðeins lýsing á því sem orðnotandinn vill koma til skila til þess sem við er rætt. En við þekkjum það vel hvernig Gróa á Leiti breytir lýsingum eftir sínu höfði og það sama á við um þann sem heyrir/sér lýsingu orðnotandans. Það segir mér svo hugur að þessi útskýring sé frekar óskýr svo ég ætla að nota texta úr Spámanninum eftir Kahlil Gibran sem útskýrir þetta miklu betur.
" Þið talið, þegar hugsanir nægja ykkur ekki lengur. Og þegar þið getið ekki lengur dvalizt í einveru sálarinnar, farið þið að lifa á vörunum, og orðin verða ykkur afþreying og skemmtun. Og margt í ræðu ykkar hálfdrepur hugsunina, því að hugsunin er fugl, sem í búri orðanna kann að blaka vængjunum, en getur ekki flogið."
Jamm þar hafðið þið það.........helsta lausnin á þessu máli sem ég hef dottið niður á er að nota aðferð sálfræðinga og allir ættu að kannast við: "Þegar þú notar orðið ______ í þessum aðstæðum (lýsa aðstæðum), hvaða merking er á bak við orðið?"
Svo þar til næst, ekki túlka orð annarra, spyrðu frekar hvað merkingu viðkomandi leggur í orðin sem notuð eru.
posted by Big Bird a.k.a. BB 11:34 f.h.
|
 |