|
miðvikudagur, desember 07, 2005
Jæja góðir hálsar, við hér í Sesamestræti erum algjörlega að missa allt niðrum okkur í skrifum en sennilega kemur það dyggum gestum okkar ekkert á óvart. Það verður að segjast að gestir Strætsins eru til fyrirmyndar þegar að heimsóknum kemur og sést það vel á teljaranum okkar sem nálagst nú óðum 30.000. Já þrátt fyrir stopul skrif komið þið enn og þökkum við kærlega fyrir áhugann. Ekki ætla ég að lofa veraldlegum verðlaunum tilhanda þrítugþúsundasta gestinum heldur gef ég hér með formlega eitt stykki innleggsnótu upp á 5 tíma geðmeðferð að eigin vali :Þ Sá heppni er vinsamlegast beðinn um að senda mér tölvupóst til að vitja vinningsins.
Það er frekar rólegt í Sesamestræti þessa dagana. Við BB höfum nýtt okkur veggheimabíóið óspart undanfarin kvöld þar sem fræðigreinar hafa heillað lítið er kvölda tekur. Í gær var sannkölluð veisla þar sem við horfðum á fyrsta diskinn í annari seríu af Scrubs. Jeminn hvað þetta eru miklir snilldar þættir....hæfileg blanda af gamni og alvöru....en mynd segir meira en þúsund orð og ég mæli hreinlega með að þið kíkið á svo sem nokkra þætti. En helst verður annað hvort ég eða BB að vera með ykkur svo við getum útskýrt snilldina fyrir ykkur....hihihihhi. Ok ok ég skal hætta að rugla.
Það stefnir allt í ofsalega helgi. BB ætlar að skella sér til Whistler á föstudaginn og vera yfir helgina. Þessi ferð var skipulögð fyrir löngu en svo sáum við í fréttunum áðan að allt besta brettafólk heims er einmitt líka á leið í Whistler þessa helgi. Jamm brettafólkið er víst á leiðinni á úrtökumót fyrir vetrarólympíuleikana sem haldið verður um helgina. Er það tilviljun að BB velji einmitt þessa helgi eða er hún búin að skrá sig til keppni? Tja enginn veit og skora ég á BB að gera grein fyrir sínu máli. En hinir Íslendingarnir eru boðnir á laugardaginn í kveðjupartý Bakaradrengnum til heiðurs. Já strákgreyið er loksins að flytjast búferlum heim eftir langa útlegð hér í Seattle, en hér hefur hann verið að læra að telja fiska. Loksins þykir sannað að hann geti notað bæði fingur og tær til að telja svo honum er ekkert að vanbúnaði að hefjast handa við að telja Atlantshafs-þorskinn. Viljum við í Sesamestræti óska honum velfarnaðar í framtíðinni!
Hér verður tekin 180° beyja í skrifunum. Daginn eftir að ég skrifaði síðasta pistil fór ég í síðasta tímann í hug-líkama kúrsinum mínum. Þetta var tregafull kveðjustund þar sem þessi 12 manna hópur var að hittast í síðasta sinn í gríðarlega góðri grúppuvinnu. Allir áttu að koma með eitthvað sem er þeim þýðingarmikið og ein stúlkan gaf okkur eintak að lesningunni sem rituð er hér á eftir. Tilviljun? Humm.....allavega brosti ég og sagði...."exactly what I was trying to write last night".
Þar til næst: "Þegar þú ferð á fætur á morgnana, hugsaðu þá um hvað það eru mikil forréttindi að vera lifandi, draga andann, hugsa, njóta og elska".
posted by Big Bird a.k.a. BB 11:03 e.h.
|
 |