|
|
laugardagur, nóvember 01, 2003
Í gær var Hrekkjavaka hér í Bandaríkjunum og ef svo ólíklega hefði viljað til að við værum búin að gleyma því þá hefðum við líklega fljótlega fundið út úr því að eitthvað væri örðuvísi en vant er strax um morguninn er við mættum í skólann. Á göngu minni um ganga heilbrigðisdeildarinnar um morguninn mætti ég t.d. Elvis með hlustunarpípu um hálsinn, stúlku sem var enn í náttfötunum og hafði tekið með sér bangsa í skólann og svo var heilbrigðisstarfsfólkið sem var að bólusetja okkur fyrir flensu allt klætt upp í tilefni Hrekkjavökunnar. Já það var Engill sem sat í móttökunni og Wonderwoman stakk mig með sprautu. Humm........ég hef nú oft haldið þvi fram að Bandaríkjamenn séu frekar undarlegur þjóðflokkur en ekki er laust við að það hafi vottað fyrir öfund hjá mér í gær, já stundum held ég að okkur Íslendingum veitti ekki af að sleppa fram af okkur beislinu og leyfa barninu innra með okkur að taka völdin.
Við í Sesame stræti höfum verið svo upptekin í vikunni að okkur hafði láðst að kaupa grasker til að skreyta pallinn en við Oscar hugðumst bæta úr því þegar heim var komið úr skólanum. Við keyrðum í alla stórmarkaði sem eru í nágreni okkar en fórum fíluferð. Hummm.......ætli það sé bannað að selja grasker eftir kl 17 á Hrekkjavöku? Við reyndum þó að bjarga þessu fyrir horn og komum fyrir kertaluktum á pallinum fyrir framan útidyrnar í aumri tilraun til að bjóða velkomna krakka sem vildu Trikk or treata en það var aðeins einn hugrakkur geimfari með ömmu í eftirdragi sem þorði að hringja bjöllunni og fékk að launum fjórðung úr einum af þeim þremur sælgætispokum sem við höfum til taks til útdeilingar þetta kvöld. Þannig fór um sjóferð þá........jæja við eigum þá bara nægar birgðir handa gestum og gangandi þegar þeir reka kaffiþyrstir inn nefið.
Við BB ákváðum að fara að fordæmi Bandaríkjamanna og sleppa barninu í okkur lausu um kvöldið. Okkur var boðið í Hrekkjavökuteiti og eina skilyrðið var að mæta í búning. Ég eyddi nokkrum klukkutímum í búðum á Broadway í leit að einhverju sniðugu til að fara í og að endingu lét ég langþráðan draum eftir mér. Já mig hefur alltaf langað til að vera ljóska og þarna var tækifærið komið :o) Ég keypti mér ljósa hárkollu og datt svo niður á náttkjól sem var tilvalinn með auk þess sem að ég hafði fjárfest í kanínueyrum sem smellpössuðu við allt heila klabbið. BB klæddi sig upp sem Hrokafulli læknirinn Lúsifer Arrogant........það skal tekið fram hér að sá búningur var alveg heimatilbúinn og fær Prof.Jonson bestu þakkir fyrir skyrtu, axlabönd og hrikalega ljótt bindi . Restin af búningum var svo settur saman úr vinnufatnaði mínum. Það kom svo í ljós að um leið og við vorum komnar í búningana var eki aftur snúið. Já persóna Lúsifers Arrogants og hjákonu hans tóku af okkur öll völd og Oscar skemmti sér konunglega yfir háværum miskliðum þeirra með tilheyrandi hurðaskellum. Oscar tókst að koma parinu í bílinn þrátt fyrir lætin og kom þeim af sér í teitið. Þar sveif andi Hrekkjavökunnar yfir vötunum og óhætt að segja að allir hafi lagt mikið á sig til að vera í "flottasta búningnum"........á dansgólfinu bara m.a. fyrir augu, símastaur hlaðinn af auglýsingum, Hillbilly, mannætu og bófa með mann í gíslingu. Humm......þetta gæti hljómað óskiljanlega svo endilega skellið ykkur hingað og tékkið á þessu með eigin augum.
Já við BB erum bara sammála um það að þetta var eitt af skemmtilegustu teitum sem við höfum farið í svo að þið skuluð bara vara ykkur........aldrei að vita nema að næsta teiti sem önnur hvort okkar heldur á klakanum verði furðufatateitin, bara gert til að hjálpa ykkur að frelsa barnið innra með ykkur.
Þar til næst
Góðar stundir
e.s. hér eru nokkrar myndir frá síðasta fundi Glaðra nála
posted by Big Bird a.k.a. BB 9:58 e.h.
mánudagur, október 27, 2003
Enn bætist í reynslubankann hjá okkur í Sesame stræti! Eins og BB minntis á á föstudaginn fórum við að sjá okkar fyrsta leik í amerískum fótboltaá laugardaginn. Ekki var þessi dagur neitt í líkingu við það sem ég hef gert á Íslandi þegar ég hef verið að "fara á leikinn". Í fyrsta lagi var okkur boðið að mæta á bílastæðið fyrir utan leikvanginn kl 9 um morguninn. Tilefnið? jú þá hófst það sem kallað er "tailgating" hér í Ameríku sem fer fram á undan heimaleikjum hjá háskólaliðunum. Við vorum nú ekki á því að fórna því að sofa út á laugardegi svo við mættum bara kl 11 og kom þá í ljós að tailgating kallast það þegar Bandaríkjamenn fara á pallbílum sínum drekkhlöðnum af grillmat, bjór og flögum, leggja á bílaplani hjá leikvangnum þar sem leikurinn fer fram og slá upp grillveislu. Þegar við komum kl 11 var ölvunarástand allra á staðnum eins og eftir góða vísindaferð en klukkan ekki orðin hádegi. Já ekki er laust við að fíknihjúkkunni hafi blöskrað nokkuð við þessa sýn, já sinn er siður í langi hverju! það er nokkuð ljóst. Við fórum svo fylktu liði af bílastæðinu á völlinn um kl 13 og smylguðum okkur í aðra stúku en þá sem við áttum að vera í..........hehemm afsökun okkar er að þessi var með miklu betra útsýni og ekki var uppselt á leikinn. Þarna sátum við í ca 4 tíma og horfðum á Huskies keppa við Trjóumenn sem komu alla leið frá Californíu. Ég verð að segja að mér leið bara eins og ég hefði lent inn í bíómynd......þarna var allt eins og í unglingamyndunum sem ég hafi svo gaman af hér um árið ;o) Fótboltastrákar sem deita klappstýrurnar, skólahljómsveitin sem marseraði um völlinn í hálfleik með stelpu í broddi fylkingar sem kastaði sprota af mikilli list, söngur áhorfenda og síðast en ekki síst, æstur áhorfandi fyrir framan mig sem var ekki alltaf sammála dómaranum. Já ég hefði ekkert skilið í þessu ef að við hlið okkar BB hefði ekki setið Bandarískur strákur sem vildi fyrir alla muni útskýra þjóðaríþrótt sína fyrir okkur útlendingunum........nú veit ég þó hvað one down þýðir og skil að það þarf að byrja aftur ef dómarinn segir: pass is incomplet!!!! En æji ég held að mér líki betur við handbolta og knattspyrnu......það er bara einhvern vegin miklu meiri fegurð í þeim íþróttagreinum, já skilji nú hver þessa setningu fyrir sig :o)
En, farin að sofa,
Góðar stundir
posted by Big Bird a.k.a. BB 10:38 e.h.
|
 |